Færsluflokkur: Dægurmál

Lágkúra í fréttaflutningi

Lágkúra í fréttaflutningi á Íslandi nær nýjum hæðum í þessari frétt. Fram kemur að fréttin er unnin í samtali blaðamanns við Halldór Benjamín Þorbergsson. Í Danmörku, þar sem ég bý, hefði þetta ekki verið talið birtingarhæft í stærstu dönsku dagblöðunum.

 

Framkvæmdastjórinn segir meðalheildarlaun bílstjóra í olíudreifingu hafa verið 893.000 krónur árið 2022 (hér er væntanlega átt við á mánuði þó þess sé ekki getið í fréttinni). Þar hefði hann að ósekju getað nefnt þátt grunnlauna annars vegar og svo yfirvinnu hins vegar. Svo kemur hinn furðulegi samanburður við svokallaðan „fullvinnandi á almennum vinnumarkaði árið 2021 með lægri mánaðarlaun en 858.000 krónur”. Í fyrsta lagi er út úr öllu korti að taka annars vegar árið 2022 og svo hins vegar árið 2021. Ef framkvæmdastjórinn hefur ekki enn tölurnar fyrir almenna vinnumarkaðinn árið 2022, þá á hann að birta tölurnar fyrir meðalheildarlaun bílstjóra í olíudreifingu árið 2021 til samanburðar við almenna vinnumarkaðinn sama ár. Hitt er verulega villandi og óheiðarlegur málflutningur og framkvæmdastjóranum til lítils sóma.

 

Hvers vegna notar framkvæmdastjórinn ekki orðið meðalheildarlaun í samanburðarupphæðinni heldur orðið mánaðarlaun? Er hann þar kannski að vísa til föstu launanna að undanskilinni yfirvinnu? Honum væri trúandi til þess með tilliti til frjálslega samanburðarins milli ára.

 

Það er hreint með ólíkindum líka að bera saman skýrt afmarkað starf bílstjóra í olíudreifingu við einhvern gráan, loðinn og óljósan massa 70% fullvinnandi á almennum vinnumarkaði árið 2021. Sá massi er væntanlega handvalinn af framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Nær hefði verið að tilgreina sambærileg störf eða starf á almenna vinnumarkaðnum þar sem unnið er við heilsuspillandi aðstæður líkt og í tilviki bílstjórans. Grái og loðni massinn, sem getið var hér á undan, vinnur jafnvel upp til hópa í þægilegri innivinnu. Ég sem lesandi hef að minnsta kosti enga möguleika á að geta mér til um við hverja samanburðurinn er í raun!

 

Danskir blaðamenn Jyllands-Posten og Politiken, svo dæmi séu tekin, láta viðmælendur sína ekki komast upp með annan eins moðreyk og boðið er upp á í málflutningi  framkvæmdastjórans. Þeir biðja um samanburðarhæfar tölur, ekki stökk á milli ára og annars vegar skýrt tilgreindan hóp og hins vegar gráan og loðinn massa.


mbl.is Meðallaun í olíuakstri um 900 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holskefla holdsveikra Dana á leiðinni!

Við Danir erum 5.822.763 talsins samkvæmt síðustu útgefnum tölum frá dönsku hagstofunni. Af öllum þessum fjölda er einn á gjörgæslu vegna kórónuveiru, já hvorki meira né minna en einn einstaklingur af tæplega sex milljónum íbúa. Þar að auki eru 13 einstaklingar innlagðir á sjúkrahús vegna veirunnar. Alls hafa greinst 15.855 einstaklingar með smit samkvæmt nýjustu tölum á ssi.dk og þar af eru 115 skráð smit síðastliðinn sólarhring og 112 teljast hafa náð sér á sama sólarhring. Búið er að skima 1.434.458 einstaklinga. Fjölgun smita upp á síðkastið er einkum meðal ungs fólks og yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem smitast nær sér að fullu. Alls hefur 621 Dani látið lífið vegna kórónuveirunnar og þar af enginn undir 30 ára aldri.

 

Eitt og annað hefur vakið athygli mína meðan á veirufaraldrinum hefur staðið hér í Danmörku og þá meðal annars það að toga þurfti upplýsingar um meðalaldur látinna með töngum út úr dönskum stjórnvöldum og var þetta lengi vel eitt best varðveitta ríkisleyndarmál Danmerkur. Mig minnir að talan hafi verið 230 látnir þegar þessar tölur voru loks birtar í fyrsta sinn. Þá kom í ljós að meðalaldur látinna karlmanna var nánast sá sami og meðallífaldur danskra karlmanna. Ég er sjálfur 65 ára gamall karlangi svo tölur um karlmenn standa mér nær en tölur um kvenmenn. Ef tölurnar fyrir látna karlkyns einstaklinga eru skoðaðar nánar, þá kemur í ljós að enginn hefur látist í Danmörku í aldurshópnum 0-29 ára, einn hefur látist í aldurshópnum 30-39 ára og enginn í aldurshópnum 40-49 ára. Fyrir forvitnar íslenskar konur er rétt að geta þess að engin dönsk kona í aldurshópnum 0-49 ára hefur látist af kórónuveiru enn sem komið er. 11 karlar hafa látist í aldurshópnum 50-59 ára, 37 í aldurshópnum 60-69 ára, 127 í aldurshópnum 70-79 ára, 133 í aldurshópnum 80-89 ára og 41 í aldurshópnum 90+. Alls hafa 350 karlmenn látist af völdum kórónuveiru í Danmörku og 271 kona.

 

Ofangreindar tölur segja auðvitað ekki alla söguna því sumir þeirra sem ná sér af veirunni glíma við alvarleg eftirköst og enn er of snemmt að segja til um hvenær og hvort þau eftirköst hverfa að fullu. Langflestir virðast þó ná sér að fullu og sumir sleppa með nánast engin einkenni á meðan þeir eru veikir. Hér er ég að vísa til reynslunnar í Danmörku og þori ekkert að fullyrða um Ísland.

 

Danska heilbrigðiskerfið ræður mjög auðveldlega við álagið af þessum eina einstaklingi á gjörgæslu vegna kórónuveiru og hinum 13 sem eru innlagðir auk allra hinna sjúklinganna sem þjást af öðrum kvillum. Auðvitað veit ég ekki nákvæmlega hvernig ástandið er á íslenskum heilbrigðisstofnunum en það hlýtur að vera afar bágborið ef það ræður ekki við neina aukningu frá því sem nú er. Hvað nákvæmlega gefur til kynna að sprenging verði í smitum við að leyfa Dönum að koma til Íslands án undangenginnar fimm daga sóttkvíar? Auðvitað ber að loka á lönd þar sem aukning smita er stjórnlaus. Hér í landi er aukningin mjög vel viðráðanleg enn sem komið er og 115 ný smit á sólarhring í landi með tæpar sex milljónir íbúa telst ekki vera heimsendir.

 

Það gleður mig að heyra raddir á Íslandi sem láta gaspur heimsendaspámanna og annarra bölsýnispostula sem vind um eyru þjóta og vísa þess í stað til staðreynda og hvetja til hófsemi auk þess að anda með nefinu og sýna stillingu á þessum viðsjárverðu tímum.

 

Halda mætti að von væri á holskeflu holdsveikra Dana til Íslands eftir miðnætti í kvöld ef marka má kvaðir íslenskra stjórnvalda um þvingaða fimm daga sóttkví. Svona vinnubrögð jaðra við byggingu nýs Berlínarmúrs á Íslandi og eru í engu samræmi við þá hættu sem í raun stafar af dönskum ferðalöngum í dag.


Kórónuveiruvarnagirðingar Íslands

Heldur þykir mér Íslendingar fara offari í vörnum gegn kórónuveirunni þessa dagana. Málið snertir mig beint þar sem ég hygg á ferð til Íslands núna á næstunni og er búinn að kaupa miðann. Kannski væri réttara að segja að ég hafi verið búinn að kaupa miðann og hafi orðið að breyta honum vegna nýjasta útspils íslensku ríkisstjórnarinnar í veiruvarnamálum. Ég var búinn að kaupa miða fyrir vikuferð til Íslands en varð að breyta honum í miða fyrir hálfs mánaðar ferð til Íslands með tilheyrandi aukakostnaði vegna kröfunnar um skimun og sóttkví. Ég ræð við aukakostnaðinn og lifi vonandi umstangið og vesenið af en er hins vegar engan veginn sáttur við rökin fyrir breyttum reglum um komu til Íslands. Sagt er að veiran sé í sókn alls staðar í heiminum án þess að rökstyðja það nánar. Sannleikurinn er kannski ívið flóknari en sem svo.

 

Bærinn sem ég bý í er með núll smitaða í augnablikinu og er búinn að vera það í talsverðan tíma og er því sókn veirunnar hér fremur máttlítil í mínum huga. Danmörk í heild sinni, sem ég vissulega tilheyri, er hins vegar með aukningu smita en þó vart svo að það réttlæti þessa dæmalausu aðgerð íslenskra stjórnvalda gagnvart Danmörku. Ef málið er skoðað nánar þá kemur í ljós mjög staðbundið smit sem er stundum bundið við klikkaða hegðun ákveðinna hópa og það oft hópa sem ólíklegir eru til að heimsækja Ísland svo nokkru nemi. Skulu nú tilgreind dæmi: Blindfullar fótboltabullur í Árósum sáu til dæmis ástæðu til þess að safnast saman í stórum hópum í miðbæ Árósa til þess að fagna því að lið þeirra, AGF, hefði náð bronsverðlaunum í dönsku deildinni! Mikil smitaukning varð í kjölfar þessara fagnaðarláta yfir mjög litlu.

 

Sómalskur minnihluti í Árósum upplifði skyndilega sprengingu smita á mjög skömmum tíma og fyllti þetta margan Danann miklum áhyggjum yfir því að kannski hefði upplýsingamiðlun verið ábótavant til þessa hóps, því eins og mörgum er kunnugt, þá er danska kannski ekki auðveldasta tungumál í heimi og ekki allir innflytjendur fljúgandi færir í henni. Viðtal var því í sjónvarpsfréttum við formann samtaka Sómala í Árósum og hann spurður hvort verið gæti að fólkið hefði ekki fengið upplýsingar um faraldurinn og helstu varúðarráðstafanir sem rétt væri að beita. Svar hans var að öllum Sómölum í Árósum væri fullkunnugt um tilmæli um bil manna á milli og eins handþvott og almennt hreinlæti. Hins vegar væri það trú flestra Sómala að þetta væri í Guðs höndum og að mikið betra tæki við þegar til hans væri komið og því vart ástæða til að vera að gera sér rellu út af málinu! Rétt er að geta þess að margir Sómalar starfa sem bílstjórar strætisvagna í Árósum og segir sig því sjálft að smithætta í vögnunum eykst með svona afstöðu. Grímuskylda er því komin í almenningssamgöngum í Árósum nú og þökk sé meðal annars Guði Sómalanna fyrir það!

 

Annar hópur innflytjenda komst í fréttir í tengslum við jarðarför þar sem saman voru komnir meira en 200 einstaklingar sem stóðu mjög þétt saman. Þegar einn viðstaddra var spurður hví ekki væri hugað að smitvörnum í samræmi við tilmæli danskra stjórnvalda, þá var svarið að samkvæmt þeirra trúarbrögðum fylgdu allir nákomnir sem það vildu hinum látna til grafar. Hallí, halló segi ég nú bara! Meðal okkar kristinna manna hefur þetta einnig verið til siðs en við fylgjum tilmælum stjórnvalda og mætum bara allra nánustu ættingjar og svo er verið að útvarpa frá útförum á hinum ýmsu samfélagsmiðlum og Guð má vita hvað. Enn og aftur er þetta hópur sem ekki hefur verið að sækja Ísland heim í stórum stíl. Auðvitað getur smit borist frá þessum hópum til annarra eins og gefur að skilja en það er mun minna en margur heldur.

 

Fjöldinn allur af innflytjendum utan ofangreindra hópa virðir þó tilmæli danskra stjórnvalda til hins ýtrasta og upplifir því heldur ekki neina markverða aukningu smita.

 

Íslandsför mín að þessu sinni snýst meðal annars um árlega þriggja daga fjölskylduferð í veiði austur í Skaftafellssýslu. Ég veit að á leiðinni þangað mun ég horfa dreymnum augum á þann stað á Mýrdalssandi þar sem áður stóð mæðuveikivarnagirðing ein með hliði sem allir þurftu að nema staðar við til að opna og loka hliðinu. Núna er upplagt að reisa þarna veglega kórónuveiruvarnagirðingu og hlið því smit er meira bæði austan og vestan þessa staðar en smit á því svæði sem ég nú bý. Varla geta Reykvíkingar hugsað sér að smitast af einhverjum stórhættulegum Austfirðingnum sem álpast til borgarinnar, né geta Austfirðingar hugsað sér að smitast af einhverjum árans borgarbúanum sem er að þvælast út á land. Þarna mætti því reisa veglega byggð smáhýsa á sandinum, eða í Hafursey og Hjörleifshöfða vegna Kötlu gömlu, þar sem fólk gæti farið í hundahreinsun og sprittun bæði í „hoved og røv” eins og við gjarnan segjum í Danmörku og síðan í skimun og alles í fáeina daga áður en hægt væri að halda förinni áfram. Varla er það ætlun íslenskra stjórnvalda að mismuna fólki á grundvelli þjóðernis og búsetu auk þess að skerða einstaklingsfrelsi þess verulega af hentisemi einni saman? Hér skal strax viðurkennt að ég er danskur ríkisborgari en ég er einnig enn sem komið er íslenskur ríkisborgari líka og á börn, frændur og frænkur á Íslandi. Hvers á ég að gjalda búsetu minnar vegna þegar sterk sóttvarnarrök mæla hreint ekki með því að ég þurfi að sæta þeim afarkostum sem mér nú er boðið upp á? Hvers virði er frelsi einstaklingsins og ferðafrelsi nú á tímum á Íslandi? Ég ítreka að ég skil vel hertar aðgerðir gagnvart hópum sem koma frá svonefndum rauðum svæðum en að eitt skuli yfir alla ganga án réttmæts rökstuðnings skil ég hreint ekki og mun aldrei skilja.

 

Dönsk stjórnvöld kjósa að horfa til fleiri þátta en bara sóttvarnaþátta og hagfræðilegra þátta í baráttu sinni gegn veirunni og reyna í staðinn að samþætta ólík sjónarmið úr hinum ýmsu áttum. Niðurstaðan er því eðlilega oft málamiðlun og ekki endilega sú besta ef bara er horft til eins þáttar. Íslenska leiðin bitnar hins vegar mjög illa á einstökum atvinnugreinum, eins og til dæmis ferðaþjónustu og flugrekstri. Flestum ætti að vera ljóst að gífurlegur fjöldi starfa er svo afleiddur beint af þessum greinum og mun líða verulega þegar fram í sækir þó þeirra áhrifa gæti kannski ekki enn sem komið er. Allar leiðir til að milda högg þessara atvinnugreina hljóta að vera til góðs.

 

Kapp er best með forsjá!


Sólarorka til upphitunar húsa

Sólarorka til upphitunar húsa getur verið vænlegur kostur. Því hef ég fengið að kynnast af eigin raun hér í Dronninglund á Norður-Jótlandi þar sem ég bý. Hitaveita bæjarins tók sólarorkuver í notkun í maí árið 2014. Alls eru 1.350 heimili tengd hitaveitunni og koma 40% heitavatnsins á ársgrundvelli frá sólarorkuverinu. Skemmst er frá því að segja að hitunarkostnaður húsa hér í bæ hefur lækkað verulega síðan sólarorkuverið var tekið í notkun, en fyrirfram var okkur notendum hitaveitunnar lofað því að kostnaður yrði ekki hærri en áður. Reyndin varð hins vegar veruleg lækkun á hitunarkostnaði eins og áður getur.


mbl.is Græn orka skákar jarðefnaeldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt tryggingafélag að danskri fyrirmynd

Kannski er kominn tími á nýtt tryggingafélag á Íslandi? Umræða liðinna daga gefur slíkt sterklega til kynna. Punkturinn yfir i-ið kom þegar forstjóri Sjóvár lýsti því yfir að arðgreiðslur félagsins yrðu lækkaðar úr 3,1 milljarði króna í 657 milljónir um leið og hann lýsti því yfir að málið byggðist á rangfærslum. Óskammfeilnin er yfirgengileg. Að sjálfsögðu ættu arðgreiðslurnar að standa óbreyttar ef um rangfærslur væri að ræða og hægt væri að sýna fram á slíkt. Allur annar málflutningur er orðagjálfur og tilraun til að senda Svarta Pétur til skilningslauss almennings þar sem hann á hreint ekki heima. Ef Sjóvá ætti góðan málstað að verja þá skipti ekki miklu máli hvort um 3,1 milljarð eða 10 milljarða væri að ræða.

Fyrstu viðbrögð stjórnar Sjóvár voru þau samkvæmt fréttum að arðgreiðslurnar skyldu standa óbreyttar, en þegar menn skynja mjög eðlilegan mótbyrinn í samfélaginu þá lúffa þeir skyndilega enda málstaðurinn hræðilegur svo vægt sé til orða tekið. Hvers vegna er hann hræðilegur spyrja kannski sumir. Fyrst og fremst vegna þess að hin einkareknu tryggingafélög eru í raun tryggð hjá ríkisvaldinu án þess að þurfa að borga iðgjöld af tryggingunni. Kerfislegt mikilvægi þeirra veldur því að sögn að þeim verður bjargað ef á reynir. Um leið og þau geta stundað sinn einkarekstur í skjóli hins breiða faðms ríkisvaldsins og skammtað sér arðgreiðslur án afskipta, þá þarf almenningur að blæða í formi hækkaðra iðgjalda og líka ef illa fer hjá tryggingafélögunum vegna óhóflegra arðgreiðslna til dæmis.

Að tryggingafélög sem haga sér á svona glórulausan hátt skuli vera með ókeypis tryggingu hjá ríkisvaldinu og geti þannig leikið heilagar kýr, því lög og reglur veita bersýnilega ríkisvaldinu engan mátt til að bregðast við háttsemi þeirra, nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Þrælslund okkar Íslendinga er og hefur lengi verið rík, en hér er þörf fyrir bein inngrip bæði í formi breyttrar löggjafar og eins heilbrigðara samkeppnisumhverfis og þar með fleiri valkosta.

Upplagt gæti verið að stofna nýtt tryggingafélag að danskri fyrirmynd, til dæmis í stíl við GF Forsikring sem ég fjallaði um í síðustu tveimur bloggfærslum mínum. Eins og lögum og reglum er háttað í dag er nánast sjálfgefið og áhættulítið að stofna slíkt tryggingafélag því væntanlega væri það jafn kerfislega mikilvægt og hin tryggingafélögin sem sinna lögboðnum húsa- og bifreiðatryggingum.

Hvers vegna er ég að skipta mér af þessum málum þegar ég er búsettur í Danmörku? Svarið er einfalt. Ég er skattskyldur í bæði Danmörku og á Íslandi núna og greiði því skatt á báðum stöðum. Mér er meinilla við að skattfé mitt renni í sameiginlega sjóði sem að hluta til eru ókeypis baktrygging fyrir einkarekin tryggingafélög sem svo sannarlega sýna ekki ábyrga viðskiptahætti í því umhverfi sem þau starfa.


Meira um danskar bifreiðatryggingar

Í síðasta bloggpistli mínum greindi ég lítillega frá danska tryggingafélaginu GF Forsikring. Ég er einn eigenda tryggingafélagsins, en áður en menn missa sig alveg yfir þeim upplýsingum ber að nefna að allir viðskiptavinir/tryggingatakar félagsins eru eigendur. Minn eignarhlutur kostaði mig 100 danskar krónur þegar ég gerðist meðeigandi á sínum tíma. Það er því á færi margra hér í Danmörku að eiga tryggingafélag og ég er einn af þeim lukkunnar pamfílum.

Arðgreiðslur til einhverra eigenda úti í bæ þekkjast því ekki og allur hagnaður rennur óskiptur til eigenda félagsins, sumsé mín og meðeigenda minna. Allir tryggingatakar félagsins fá endurgreiddan hagnað ársins, líka þeir sem hafa lent í tjóni á árinu.

Nú spyrja eflaust margir hví tryggingafélagið hafi ekki nánast alla bifreiðaeigendur Danmerkur sem viðskiptavini sína. Spurningin er góð og gild, en ég er bara illa gefinn óbreyttur borgari sem kann ekki öll bellibrögðin í bókinni. Örlitla nasasjón hef ég þó af þessum málum og get nefnt dæmi frá því að ég keypti mína eigin bifreið. Hún var keypt í stóru bifreiðaumboði hér í landi, sem á þeim tíma og kannski líka í dag var með samning við tryggingafélagið Codan. Bifreiðaumboðið bauð mér þá tryggingu hjá Codan þar sem iðgjaldið var mjög lágt fyrsta árið og aðeins undir almennu markaðsverði. Í mínum augum er um tiltölulega einfalda sölubrellu að ræða því strax eftir fyrsta árið hækkar iðgjaldið verulega og fer vel yfir það sem GF Forsikring býður. Líkt og á Íslandi greiða flestir hér sína reikninga í gegnum greiðsluþjónustu í bönkum. Margir taka því ekki eftir hækkuninni og lifa því við hana án vandkvæða, en þó með minna og minna fé milli handanna eftir því sem árin líða. Aðrir sjá kannski hækkunina strax og hún skellur á, en eingöngu hinir framtakssömu munu nenna að skipta um tryggingafélag. Hinir hugsa oft sem svo að þessi tryggingafélög séu öll sama marki brennd og því þjóni það engum tilgangi að skipta.

Ég veit ekki alveg hvort ég á að trúa fréttum af þremur íslensku tryggingafélaganna, en ég hef meðal annars lesið að iðgjöld séu mjög keimlík hjá þeim og eins virðast þau öll ætla að greiða þokkalegar arðgreiðslur til eigenda sinna á sama tíma og iðgjöld tryggingataka skulu hækkuð. Það er alltaf gott að hafa vel rekin fyrirtæki sem geta skilað eigendum sínum hagnaði og því ber síst að hallmæla. Hins vegar vekur það örlitla furðu hve samstíga þau eru í þessum aðgerðum sínum. Fyrir okkur sem búum langt utan við landsteinana líkist þá gjörningurinn allt í einu drullumalli sem er íslensku viðskiptaumhverfi til lítils sóma.


Aðeins um danskar bifreiðatryggingar

Í síðastliðinni viku barst bréf í póstkassann frá tryggingafyrirtækinu mínu, en ég er viðskiptavinur hjá danska tryggingafyrirtækinu GF Forsikring. Í bréfinu var mér tjáð að lagðar yrðu inn 410 danskar krónur inn á bankareikning minn þann 11. mars næstkomandi, en það væri mín hlutdeild í hagnaði ársins 2015. Rétt er að geta þess hér að GF Forsikring er rekið sem tryggingaklúbbar um alla Danmörku og ég er félagi í Álaborgardeild tryggingafélagsins. Árið í ár er fjórða árið sem ég er með bifreiðatryggingar hjá GF Forsikring og mér hefur borist endurgreiðsla öll árin. Í upphafi valdi ég GF Forsikring fyrir bifreiðatryggingar vegna þess að þeir komu langbest út í óháðri könnun á dönskum tryggingafélögum á þeim tíma.

Að gamni mínu kíkti ég á iðgjöld annarra trygginga hjá þeim í samanburði við önnur dönsk tryggingafélög á sama tíma og ég tók bifreiðatrygginguna. Ég eyddi mjög drjúgum tíma í þessa athugun mína og auk þess að tala beint við tryggingafélögin forvitnaðist ég hjá mörgum dönskum vinum mínum um tryggingamál þeirra. Lokaniðurstaðan varð sú að í dag er ég með þrjár aðrar tryggingar auk bifreiðatrygginga hjá tryggingafyrirtækinu og spara stórfé auk þess sem tryggingaverndin er ýmist sambærileg eða hreinlega betri en það sem ég hafði áður. 

Tryggingafyrirtæki það sem ég var með hústrygginguna hjá áður hringdi í mig eftir að ég hafði skipt og vingjarnlegur maðurinn sagði við mig að þeir gætu yddað blýantinn aðeins og boðið mér lægra iðgjald. Ég spurði þá manninn hvort hann gæti yddað blýantinn svo mikið að iðgjaldið yrði hið sama eða lægra en það sem ég var kominn með og nefndi upphæðina. Skyndilega gat hann ekki yddað blýantinn meira! 

Ég vil hvetja fólk til að skoða heimasíðu danska tryggingafyrirtækisins GF Forsikring og smella þar sem stendur „Om GF” til að sjá nánar hvernig er hægt að haga tryggingamálum í stóru samfélagi þar sem fákeppni og einokunartilburðir þrífast illa.


Eigi stenst þessi frétt

Í fréttinni er því haldið fram að engin systkini séu eins gömul samanlagt og börn hjónanna Jónasar Ólafssonar og Sigríðar Gústafsdóttur frá Kjóastöðum, en þau munu vera samtals 974 ára gömul.
Börn hjónanna Gíslnýjar Þorsteinsdóttur og Þorsteins Ólafssonar frá Vestmannaeyjum sem enn eru á lífi, þar á meðal móðir mín, eru samtals 992 ára gömul þegar þessar línur eru ritaðar. Ef Guð leyfir, þá ná þau 1000 ára markinu þann 17. maí næstkomandi.
Systkinin eru alsystkini, en ósagt skal látið hvort þau eru samanlagt elstu systkini á Íslandi, en þau eru að minnsta kosti ívið eldri samanlagt en systkinin sem fréttin fjallar um.
Hafa skal það sem sannara reynist.
mbl.is Börnin fagna 974 ára afmæli sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvaða landa á að flytja út?

Vart stendur til að flytja tómatana hingað til Danmerkur eða hinna Norðurlandanna. Hér eru tómatar ræktaðir í stórum stíl við sólarljósið eitt að sumri til og fluttir inn hræbillegir frá til dæmis Spáni að vetrarlagi þar sem einnig er notast við sólarljósið. Sjálfur rækta ég 14 tegundir í heimagróðurhúsi, úti í garði og á verönd hér til heimabrúks og handa vinum og kunningjum. Hér í bæ rækta geysilega margir sína tómata í gróðurhúsum og á veröndum. Tómatana er hægt að snöggsjóða síðla hausts og geyma í frysti til matargerðar þó vissulega séu þeir bestir nýir beint af plöntunni.

Vonandi kanna menn þetta dæmi örlítið betur áður en ráðist verður í framkvæmdir. Hagkvæmnin er afar hæpin.


mbl.is Tómatar geta skapað 60 til 100 störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða heimildir?

Vitnað er í Landssamtök hjólreiðamanna og eftirfarandi haft eftir þeim: "Landssamtökin benda m.a. á að þar sem hjálmaskylda hafi verið tekin upp hafi hjólreiðamönnum fækkað og hjólreiðamönnum sé ekki meiri hætta búin af höfuðáverkum en öðrum vegfarendum." Hvaða rannsókn í hvaða landi hefur sýnt fram á fækkun hjólreiðamanna beinlínis vegna hjálmaskyldu?

Hér í Danmörku þar sem ég bý og fer flestra ferða minna gangandi eða hjólandi er ekki hjálmaskylda. Samt hefur hjólreiðafólki farið stórlega fækkandi hér í landi og vart hægt að kenna hjálmum þar um. Á árunum 1992 til 2006 fækkaði hjólreiðafólki um ca. 20% í Danmörku. Þessi þróun hefur haldið áfram síðan og sem dæmi má nefna að hjóla- og skellinöðruumferð minnkaði um 14,2% frá þriðja ársfjórðungi 2006 til sama ársfjórðungs árið 2007. Á fyrsta ársfjórðungi árið 2008 minnkaði hjóla- og skellinöðruumferð um 5%.

Orsakasamhengi hluta er ekki alltaf eins og menn halda við fyrstu sýn. Sjálfur get ég vel sætt mig við að hver og einn ákveði hvað honum er fyrir bestu svo lengi sem lög og reglur eru í heiðri höfð. Ég vel að nota hjálm í hvert sinn sem hjólað er þar sem hausinn er mitt helsta atvinnutæki og án hans í þokkalegu lagi væri ég illa staddur. Lögmál eðlisfræðinnar eða duttlungar örlaganna ollu mér meiri skaða í þau skipti sem ég hrasaði á reiðhjóli áður en ég hóf hjálmnotkun, en þau skipti sem ég hef hrasað á til dæmis svelli sem gangandi vegfarandi.


mbl.is Opin heimild til hjálmaskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Magnús Guðnason

Höfundur

Magnús Guðnason
Magnús Guðnason
Ráðstefnutúlkur, þýðandi og áhugamaður um garðrækt. Er búsettur á Jótlandi.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband