Hvaða heimildir?

Vitnað er í Landssamtök hjólreiðamanna og eftirfarandi haft eftir þeim: "Landssamtökin benda m.a. á að þar sem hjálmaskylda hafi verið tekin upp hafi hjólreiðamönnum fækkað og hjólreiðamönnum sé ekki meiri hætta búin af höfuðáverkum en öðrum vegfarendum." Hvaða rannsókn í hvaða landi hefur sýnt fram á fækkun hjólreiðamanna beinlínis vegna hjálmaskyldu?

Hér í Danmörku þar sem ég bý og fer flestra ferða minna gangandi eða hjólandi er ekki hjálmaskylda. Samt hefur hjólreiðafólki farið stórlega fækkandi hér í landi og vart hægt að kenna hjálmum þar um. Á árunum 1992 til 2006 fækkaði hjólreiðafólki um ca. 20% í Danmörku. Þessi þróun hefur haldið áfram síðan og sem dæmi má nefna að hjóla- og skellinöðruumferð minnkaði um 14,2% frá þriðja ársfjórðungi 2006 til sama ársfjórðungs árið 2007. Á fyrsta ársfjórðungi árið 2008 minnkaði hjóla- og skellinöðruumferð um 5%.

Orsakasamhengi hluta er ekki alltaf eins og menn halda við fyrstu sýn. Sjálfur get ég vel sætt mig við að hver og einn ákveði hvað honum er fyrir bestu svo lengi sem lög og reglur eru í heiðri höfð. Ég vel að nota hjálm í hvert sinn sem hjólað er þar sem hausinn er mitt helsta atvinnutæki og án hans í þokkalegu lagi væri ég illa staddur. Lögmál eðlisfræðinnar eða duttlungar örlaganna ollu mér meiri skaða í þau skipti sem ég hrasaði á reiðhjóli áður en ég hóf hjálmnotkun, en þau skipti sem ég hef hrasað á til dæmis svelli sem gangandi vegfarandi.


mbl.is Opin heimild til hjálmaskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Þær fullyrðingar, sem Landsamtök Hjólreiðamanna hafa sett fram um fækkun hjólreiðamanna í kjölfar hjálmaskyldu eru byggðar á tölum frá þeim löngum, sem hafa sett á hjólmaskyldu og eru með tölur um hjólreiðanotkun fyrir og eftir lagasetningu. Hér er ein slík skýrsla varðandi Ástralíu.

http://injuryprevention.bmj.com/content/9/4/380

Hér er úttekt norsku vegagerðarinnar á gagnsemi hjálmaskyldu frá 2007 þar, sem farið var vel yfir reynslu þeirra þjóða, sem sett hafa slík lög.

http://www.vegvesen.no/Om+Statens+vegvesen/Media/Nyhetsarkiv/Nasjonalt/Ikke+sykkelhjelmp%C3%A5bud+for+unge.52375.cms

Eins og hér kemur fram þá lagðist norska vegagerðin gegn skyldunotkun hjálma eftir ítarlega rannsókn á afleiðingum slíkrar lagasetningar, sem meðal annars fólst í því að skoða reynslu þeirra þjoða, sem höfðu sett slík lög. Niðurstaðan var sú að slík lagasetning auki ekki öryggi hjólreiðamanna en hafi hins vegar þau árhrif að fækka hjólreiðamönnum verulega með miklum skaða fyrir umhverfi og lýðheilsu.

Norðmenn hafa náð einum besta árangri í heiminum í umferðaöryggismálum þannig að ljóst er að þeir taka skík mál föstum tökum og með faglegum hætti. Því er þetta niðurstaða úttektar hjá einum fremstu sérfræðingum heimsins í umferðaöryggismálum.

Samkvæmt þeim tölum, sem ég hef séð hefur hlutfall hjólreiðamanna aukist í Kaupmannahöfn og fleiri borgum í Danmörkju síðustu ár og er ef ég man rétt 36% ferða í Kaupmannahöfn. Fækkun árin 2007 ot 2008 hafa menn einmitt rakið til hjálmaáróðurs settum fram með hræðsluáróðri, sem fékk fólk til að telja hjólreiðar hættulegra athæfi en það er.

Hvað varðar höfuðáverka í slysum á hjólreiðamönnum og gagnandi vegfarendur þá eru þær byggðar á rannsóknum á því. Þar hefur komið fram að alvarlegir höfuðáverkar eru algengari í slysum á gangandi vegfarendu og fókli í bíl heldur en á hjólreiðamönnum. Ég geri ekki ráð fyrir að um sé að ræða hálkuslys enda alvarlegustu slysin á gangandi og hjólandi vegfarendum þegar ekið er á þá. Staðreyndin er sú að það er meiri hætta á að gangandi vegfarandi verði fyrir höfuðáverka við að ekið er á hann heldur en hjólreiðamaður þó hjálmlaus sé.

Staða gagnandi og hjólandi vegfarenda er mismunandi við þessar aðstæðu og væntanlega stafar þetta af því að hjá hjólreiðamanni eru meiri líkur á að það sé búkurinn en ekki  höfuðið, sem taki versta höggið.

Lykilatriðið er þó það að ekki er hægt að sjá að þar, sem hjálmaskylda hafi verið sett í lög hafi það leitt til lægri slysatíðni hjólreiðamanna. Þar hefur hjólreiðamönnum hins vegar fækkað mikið. Nú liggur fyrir ísraelska þinginu lagafrumvarp um að afnema hjálmaskyldu á fullorðna. Rökin fyrir því eru slæm reynsla af hjálmaskyldu. Ég held að það sé aðeins tímaspursmál hvenær fleiri ríki að þeim, sem sett hafi á hjálmaskyldu fari sömu leið og Ísraelar.

Sigurður M Grétarsson, 2.3.2011 kl. 23:30

2 Smámynd: Morten Lange

Takk fyrir spurningar og umræðu. 

Bloggaði sjálfur við fréttina hér : http://mortenl.blog.is/blog/mortenl/entry/1147511

Mexikó-borg afnumdi nýlega hjálmaskyldu, í tengsl við það að hjólaleigukerfi var sett á laggirnar. 

Svo má taka fram að þetta er skýtip mál og tekur tíma að átta sér á. Ég var sjálfur andi sanfærður um "nauðsýn" hjálmanotkunar, en eftir 7 mańaða stífan lestur á vísindaskýrslum og þátttöku í viðræðum við sérsfræðinga á alþjóðavísu, fǽor ég að sjá að heilbrigt skynsemi eigi stundum sín takmörk, sérstaklega ef henni er beint mjög ákveðið í tiltekinna átt. Ég sá að mér hefði verið blekkt,hvasð varðar töframætti "nútíma" hjálma.

Morten Lange, 3.3.2011 kl. 14:11

3 Smámynd: Morten Lange

Það eru reyndar fleiri rannsóknir sem benda til þess að samhliða hjálmaskyldu hafi hjólreiðamönnum fækkað. Transportøkonomisk institutt í Osló, gefur út bók með samantektir á rannsóknum á umferðaröryggismálum. Þar er talað um 30% fækkun að meðaltali út frá nokkrum rannsóknum og tölfræðilegum víkmörkum út frá því ( 20 - 40 ?)  Get grafið upp ef þú hefur áhuga. Erreyndar aðgengilegt á netinu á norsku útgáfu, sem Transportsikkerhetshåndboka. Sjá kafli 4.10.

Morten Lange, 3.3.2011 kl. 17:11

4 Smámynd: Magnús Guðnason

Ágæti Sigurður M Grétarsson Ég er að reyna að gera að því skóna í bloggfærslu minni að aðrir þættir en hjálmskylda kunni að spila inn í stórlega minnkaða hjólaumferð víða um heim. Því nefndi ég til dæmi um Danmörku þar sem hjálmskylda er ekki í lögum. Engu að síður hafa hjólreiðar snarminnkað í takt við stóraukinn einkabílisma hér í landi. Ég gaf upp dæmi um þessa þróun. Þú nefnir þá að hjólreiðar hafi aukist til dæmis í Kaupmannahöfn síðan árið 2008. Þetta er mikið rétt og á sér nokkrar tiltölulega einfaldar skýringar ef nánar er skoðað. Rétt er að geta þess að hjólreiðar hafa einnig aukist í Óðinsvéum frá árinu 2008. Hins vegar hafa hjólreiðar minnkað á sama tíma alls staðar annars staðar í Danmörku. Talsverður meirihluti Dana býr utan þessara tveggja borga eins og alkunna er. Hver er þá skýringin á þróuninni í Kaupmannahöfn. Hún er eflaust fjölþætt, en árið 2008 varð til efnahagsundur, fjármálabóla eða hvaða nafni menn nú vilja nefna óhræsið sem fæddist þetta ár ekki bara á Íslandi heldur mun víðar í heiminum og þar á meðal hér í Danmörku. Bólan varð verst hér í landi í Kaupmannahöfn með þeim afleiðingum að verð á húsnæði rauk upp úr öllu valdi og venjulegu fólki, eins og til dæmis fjölmennum stéttum  á borð við kennara, hjúkrunarstarfsfólk og lögreglumenn varð með öllu ófært að búa í miðbæjarkjarna Kaupmannahafnar. Þetta fólk þurfti engu að síður áfram að sækja vinnu sína í miðbæ Kaupmannahafnar. Víða er mjög dýrt að nota bílastæði í Kaupmannahöfn. Allt of margir bílar á of litlum götum skapa einnig oft umferðaröngþveiti. Þetta varð til þess að margir völdu að búa í ódýrari úthverfum, taka járnbrautarlest til heppilegrar lestarstöðvar inni í Kaupmannahöfn og hjóla síðan þaðan í vinnuna. Þeir sem gátu búið næst miðbæjarkjarnanum völdu einnig oft að hjóla alla leið enda góðir hjólastígar út um allt og mun greiðfarnari en yfirfullar göturnar fyrir bílana. Ég kaupi ekki rök þín um fækkun vegna hjálmaáróðurs árin 2007 til 2008. Hröð fækkun hjólreiðamanna átti sér stað samhliða stórauknum einkabílisma löngu áður en sú herferð fór af stað. Þú vitnar í gögn frá Ástralíu máli þínu til stuðnings. Mér sýnist í fljótu bragði að meðal annars sé verið að vísa í viðhorfskannanir þar sem hjólreiðamenn eru spurðir beint álits á hjálmskyldu eður ei. Svona viðhorfskannanir, þar sem fólk veit hvað almennt er talið æskilegast frá heilsufarssjónarmiði (hjólreiðar eru holl iðja), leiða oft til skekktra niðurstaðna. Þekkt dæmi sem má taka til samanburðar eru kannanir á matarvenjum fólks. Viðhorfskannanir leiða oft í ljós að fólk segist borða meira af hollum mat en það í raun gerir (til dæmis grænmeti) og sömuleiðis að það borði minna af óhollustu eins og til dæmis sætindum. Sem dæmi má nefna að í könnun sem náði til rúmlega 11.000 of feitra Bandaríkjamanna svöruðu rúm 75% þeirra að þeir hefðu heilbrigðar matarvenjur. Um það bil 40% svarenda sögðust stunda líkamsrækt minnst þrisvar í viku. http://www.highbeam.com/doc/1P2-23310428.html Fólk túlkar ekki alltaf spurningar vísindamanna eins og reiknað er með. Annað atriði sem mér dettur í hug varðandi andstöðu við hjálmanotkun í Ástralíu er hitastigið þar í landi. Leikur einn er að hjóla og nota hjálm í 25 stiga hita að mínu viti, en hins vegar finn ég fyrir óþægindum þegar hitinn er kominn í tæpar 30 gráður og ekki bara vegna hjálmsins. Þetta gæti haft áhrif á svör Ástralanna. Einnig leyfi ég mér að tengja saman aukinn einkabílisma í Ástralíu og minnkandi hjólreiðar í stað þess að gera hjólahjálminn einn að blóraböggli. Í skýrslu, sem unnin er fyrir áströlsku ríkisstjórnina árið 2007, kemur fram þróun einkabílanotkunar í átta stórborgum í Ástralíu frá árinu 1950 til ársins 2005. Höfundar skýrslunnar sýna fram á bein tengsl milli bætts efnahags fólks og aukinnar einkabílanotkunar. Eknir kílómetrar á ári í einkabíl er sú mælieining sem stuðst er við. Árið 1950 var meðaltalið um það bil 1.200 eknir kílómetrar á mann á ári. Þróunin er síðan nokkuð jöfn og þétt og var þessi tala komin í um það bil 8.000 ekna kílómetra á mann árið 2005. Skýrsluna má nálgast hér: http://www.btre.gov.au/info.aspx?ResourceId=249&NodeId=59Flestum má ljóst vera að menn gera ekki hvort tveggja í einu að aka í bíl í vinnuna og fara á reiðhjóli í vinnuna þó svo að í einstaka tilvikum séu þess dæmi við stórborgarkjarna líkt og með járnbrautarlestir í dæminu á undan hér í Danmörku. Varðandi það að alvarlegustu slysin verði við árekstur bíla og hjólafólks hef ég fáeinar athugasemdir. Ég set engin spurningamerki við það að alvarleg meiðsl og dauðsföll má oft rekja til slíkra slysa. Hins vegar vilja slysin þar sem bílar koma alls ekki við sögu oft gleymast, en því miður eru einnig dauðaslys meðal þeirra. Sjálfur hóf ég hjólaferil minn hér í Danmörku árið 1978 og fram til ársins 1984 notaði ég reiðhjól til að hjóla í háskólann í Kaupmannahöfn (tók 25 mínútur á reiðhjóli, 30 mínútur í strætó og 35 mínútur í bíl). Ég notaði einnig reiðhjólið alfarið til vinnu sem ég stundaði samhliða náminu. Hjólaferill minn í Danmörku hófst aftur á þessari öld hér í Danmörku og hef ég nú búið hér í 7 ár til viðbótar árunum 6 sem áður gat. Ég nota nær eingöngu reiðhjól til að að fara í og úr vinnu og í innkaupaferðir. Ég geng einnig stundum, en hef aldrei átt einkabíl hér í Danmörku. Á þessum samtals 13 árum hef ég sem betur fer einungis tvívegis orðið sjónarvottur að árekstrum bíls og hjóls. Ég hef hins vegar ekki tölu á þeim aragrúa tilvika þar sem ég hef horft upp á slys, sum hver síst betri en árekstrana milli fyrrnefndra bíla og hjólreiðamanna. Fyrir rúmu ári síðan kom í fréttum að miðaldra kona hefði látist eftir að hún hjólaði utan í gangstéttarkant með framhjólið á reiðhjóli sínu. Hún féll við það á hnakkann á gangstéttarbrúnina og lést. Samkvæmt fréttinni var konan hjálmlaus. Ósagt skal látið hvort hjálmur hefði breytt nokkru, en hins vegar verða mörg alvarleg hjólaslys án þess að bílar komi við sögu. Að fenginni eigin reynslu kýs ég að nota hjálm áfram þar sem betra er að hafa hjálm á höfði þegar maður skellur á malbikaðan hjólastíg en ekki. Ég hef sannreynt hvort tveggja, allur hruflaður, blóðugur og með kúlu á hausnum án hjálms, en eins og nýsleginn túskildingur þegar ég datt með hjálminn á höfði að frátalinni smáskrámu á hönd sem ég náði að bera fyrir mig í fallinu. Í bæði skiptin voru það lúmskir hálkublettir í beygju á annars alauðum hjólastígum sem ollu fallinu.

Magnús Guðnason, 3.3.2011 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Guðnason

Höfundur

Magnús Guðnason
Magnús Guðnason
Ráðstefnutúlkur, þýðandi og áhugamaður um garðrækt. Er búsettur á Jótlandi.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband