Kórónuveiruvarnagirðingar Íslands

Heldur þykir mér Íslendingar fara offari í vörnum gegn kórónuveirunni þessa dagana. Málið snertir mig beint þar sem ég hygg á ferð til Íslands núna á næstunni og er búinn að kaupa miðann. Kannski væri réttara að segja að ég hafi verið búinn að kaupa miðann og hafi orðið að breyta honum vegna nýjasta útspils íslensku ríkisstjórnarinnar í veiruvarnamálum. Ég var búinn að kaupa miða fyrir vikuferð til Íslands en varð að breyta honum í miða fyrir hálfs mánaðar ferð til Íslands með tilheyrandi aukakostnaði vegna kröfunnar um skimun og sóttkví. Ég ræð við aukakostnaðinn og lifi vonandi umstangið og vesenið af en er hins vegar engan veginn sáttur við rökin fyrir breyttum reglum um komu til Íslands. Sagt er að veiran sé í sókn alls staðar í heiminum án þess að rökstyðja það nánar. Sannleikurinn er kannski ívið flóknari en sem svo.

 

Bærinn sem ég bý í er með núll smitaða í augnablikinu og er búinn að vera það í talsverðan tíma og er því sókn veirunnar hér fremur máttlítil í mínum huga. Danmörk í heild sinni, sem ég vissulega tilheyri, er hins vegar með aukningu smita en þó vart svo að það réttlæti þessa dæmalausu aðgerð íslenskra stjórnvalda gagnvart Danmörku. Ef málið er skoðað nánar þá kemur í ljós mjög staðbundið smit sem er stundum bundið við klikkaða hegðun ákveðinna hópa og það oft hópa sem ólíklegir eru til að heimsækja Ísland svo nokkru nemi. Skulu nú tilgreind dæmi: Blindfullar fótboltabullur í Árósum sáu til dæmis ástæðu til þess að safnast saman í stórum hópum í miðbæ Árósa til þess að fagna því að lið þeirra, AGF, hefði náð bronsverðlaunum í dönsku deildinni! Mikil smitaukning varð í kjölfar þessara fagnaðarláta yfir mjög litlu.

 

Sómalskur minnihluti í Árósum upplifði skyndilega sprengingu smita á mjög skömmum tíma og fyllti þetta margan Danann miklum áhyggjum yfir því að kannski hefði upplýsingamiðlun verið ábótavant til þessa hóps, því eins og mörgum er kunnugt, þá er danska kannski ekki auðveldasta tungumál í heimi og ekki allir innflytjendur fljúgandi færir í henni. Viðtal var því í sjónvarpsfréttum við formann samtaka Sómala í Árósum og hann spurður hvort verið gæti að fólkið hefði ekki fengið upplýsingar um faraldurinn og helstu varúðarráðstafanir sem rétt væri að beita. Svar hans var að öllum Sómölum í Árósum væri fullkunnugt um tilmæli um bil manna á milli og eins handþvott og almennt hreinlæti. Hins vegar væri það trú flestra Sómala að þetta væri í Guðs höndum og að mikið betra tæki við þegar til hans væri komið og því vart ástæða til að vera að gera sér rellu út af málinu! Rétt er að geta þess að margir Sómalar starfa sem bílstjórar strætisvagna í Árósum og segir sig því sjálft að smithætta í vögnunum eykst með svona afstöðu. Grímuskylda er því komin í almenningssamgöngum í Árósum nú og þökk sé meðal annars Guði Sómalanna fyrir það!

 

Annar hópur innflytjenda komst í fréttir í tengslum við jarðarför þar sem saman voru komnir meira en 200 einstaklingar sem stóðu mjög þétt saman. Þegar einn viðstaddra var spurður hví ekki væri hugað að smitvörnum í samræmi við tilmæli danskra stjórnvalda, þá var svarið að samkvæmt þeirra trúarbrögðum fylgdu allir nákomnir sem það vildu hinum látna til grafar. Hallí, halló segi ég nú bara! Meðal okkar kristinna manna hefur þetta einnig verið til siðs en við fylgjum tilmælum stjórnvalda og mætum bara allra nánustu ættingjar og svo er verið að útvarpa frá útförum á hinum ýmsu samfélagsmiðlum og Guð má vita hvað. Enn og aftur er þetta hópur sem ekki hefur verið að sækja Ísland heim í stórum stíl. Auðvitað getur smit borist frá þessum hópum til annarra eins og gefur að skilja en það er mun minna en margur heldur.

 

Fjöldinn allur af innflytjendum utan ofangreindra hópa virðir þó tilmæli danskra stjórnvalda til hins ýtrasta og upplifir því heldur ekki neina markverða aukningu smita.

 

Íslandsför mín að þessu sinni snýst meðal annars um árlega þriggja daga fjölskylduferð í veiði austur í Skaftafellssýslu. Ég veit að á leiðinni þangað mun ég horfa dreymnum augum á þann stað á Mýrdalssandi þar sem áður stóð mæðuveikivarnagirðing ein með hliði sem allir þurftu að nema staðar við til að opna og loka hliðinu. Núna er upplagt að reisa þarna veglega kórónuveiruvarnagirðingu og hlið því smit er meira bæði austan og vestan þessa staðar en smit á því svæði sem ég nú bý. Varla geta Reykvíkingar hugsað sér að smitast af einhverjum stórhættulegum Austfirðingnum sem álpast til borgarinnar, né geta Austfirðingar hugsað sér að smitast af einhverjum árans borgarbúanum sem er að þvælast út á land. Þarna mætti því reisa veglega byggð smáhýsa á sandinum, eða í Hafursey og Hjörleifshöfða vegna Kötlu gömlu, þar sem fólk gæti farið í hundahreinsun og sprittun bæði í „hoved og røv” eins og við gjarnan segjum í Danmörku og síðan í skimun og alles í fáeina daga áður en hægt væri að halda förinni áfram. Varla er það ætlun íslenskra stjórnvalda að mismuna fólki á grundvelli þjóðernis og búsetu auk þess að skerða einstaklingsfrelsi þess verulega af hentisemi einni saman? Hér skal strax viðurkennt að ég er danskur ríkisborgari en ég er einnig enn sem komið er íslenskur ríkisborgari líka og á börn, frændur og frænkur á Íslandi. Hvers á ég að gjalda búsetu minnar vegna þegar sterk sóttvarnarrök mæla hreint ekki með því að ég þurfi að sæta þeim afarkostum sem mér nú er boðið upp á? Hvers virði er frelsi einstaklingsins og ferðafrelsi nú á tímum á Íslandi? Ég ítreka að ég skil vel hertar aðgerðir gagnvart hópum sem koma frá svonefndum rauðum svæðum en að eitt skuli yfir alla ganga án réttmæts rökstuðnings skil ég hreint ekki og mun aldrei skilja.

 

Dönsk stjórnvöld kjósa að horfa til fleiri þátta en bara sóttvarnaþátta og hagfræðilegra þátta í baráttu sinni gegn veirunni og reyna í staðinn að samþætta ólík sjónarmið úr hinum ýmsu áttum. Niðurstaðan er því eðlilega oft málamiðlun og ekki endilega sú besta ef bara er horft til eins þáttar. Íslenska leiðin bitnar hins vegar mjög illa á einstökum atvinnugreinum, eins og til dæmis ferðaþjónustu og flugrekstri. Flestum ætti að vera ljóst að gífurlegur fjöldi starfa er svo afleiddur beint af þessum greinum og mun líða verulega þegar fram í sækir þó þeirra áhrifa gæti kannski ekki enn sem komið er. Allar leiðir til að milda högg þessara atvinnugreina hljóta að vera til góðs.

 

Kapp er best með forsjá!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Guðnason

Höfundur

Magnús Guðnason
Magnús Guðnason
Ráðstefnutúlkur, þýðandi og áhugamaður um garðrækt. Er búsettur á Jótlandi.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband