Meira um danskar bifreiðatryggingar

Í síðasta bloggpistli mínum greindi ég lítillega frá danska tryggingafélaginu GF Forsikring. Ég er einn eigenda tryggingafélagsins, en áður en menn missa sig alveg yfir þeim upplýsingum ber að nefna að allir viðskiptavinir/tryggingatakar félagsins eru eigendur. Minn eignarhlutur kostaði mig 100 danskar krónur þegar ég gerðist meðeigandi á sínum tíma. Það er því á færi margra hér í Danmörku að eiga tryggingafélag og ég er einn af þeim lukkunnar pamfílum.

Arðgreiðslur til einhverra eigenda úti í bæ þekkjast því ekki og allur hagnaður rennur óskiptur til eigenda félagsins, sumsé mín og meðeigenda minna. Allir tryggingatakar félagsins fá endurgreiddan hagnað ársins, líka þeir sem hafa lent í tjóni á árinu.

Nú spyrja eflaust margir hví tryggingafélagið hafi ekki nánast alla bifreiðaeigendur Danmerkur sem viðskiptavini sína. Spurningin er góð og gild, en ég er bara illa gefinn óbreyttur borgari sem kann ekki öll bellibrögðin í bókinni. Örlitla nasasjón hef ég þó af þessum málum og get nefnt dæmi frá því að ég keypti mína eigin bifreið. Hún var keypt í stóru bifreiðaumboði hér í landi, sem á þeim tíma og kannski líka í dag var með samning við tryggingafélagið Codan. Bifreiðaumboðið bauð mér þá tryggingu hjá Codan þar sem iðgjaldið var mjög lágt fyrsta árið og aðeins undir almennu markaðsverði. Í mínum augum er um tiltölulega einfalda sölubrellu að ræða því strax eftir fyrsta árið hækkar iðgjaldið verulega og fer vel yfir það sem GF Forsikring býður. Líkt og á Íslandi greiða flestir hér sína reikninga í gegnum greiðsluþjónustu í bönkum. Margir taka því ekki eftir hækkuninni og lifa því við hana án vandkvæða, en þó með minna og minna fé milli handanna eftir því sem árin líða. Aðrir sjá kannski hækkunina strax og hún skellur á, en eingöngu hinir framtakssömu munu nenna að skipta um tryggingafélag. Hinir hugsa oft sem svo að þessi tryggingafélög séu öll sama marki brennd og því þjóni það engum tilgangi að skipta.

Ég veit ekki alveg hvort ég á að trúa fréttum af þremur íslensku tryggingafélaganna, en ég hef meðal annars lesið að iðgjöld séu mjög keimlík hjá þeim og eins virðast þau öll ætla að greiða þokkalegar arðgreiðslur til eigenda sinna á sama tíma og iðgjöld tryggingataka skulu hækkuð. Það er alltaf gott að hafa vel rekin fyrirtæki sem geta skilað eigendum sínum hagnaði og því ber síst að hallmæla. Hins vegar vekur það örlitla furðu hve samstíga þau eru í þessum aðgerðum sínum. Fyrir okkur sem búum langt utan við landsteinana líkist þá gjörningurinn allt í einu drullumalli sem er íslensku viðskiptaumhverfi til lítils sóma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Guðnason

Höfundur

Magnús Guðnason
Magnús Guðnason
Ráðstefnutúlkur, þýðandi og áhugamaður um garðrækt. Er búsettur á Jótlandi.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband