Nýtt tryggingafélag að danskri fyrirmynd

Kannski er kominn tími á nýtt tryggingafélag á Íslandi? Umræða liðinna daga gefur slíkt sterklega til kynna. Punkturinn yfir i-ið kom þegar forstjóri Sjóvár lýsti því yfir að arðgreiðslur félagsins yrðu lækkaðar úr 3,1 milljarði króna í 657 milljónir um leið og hann lýsti því yfir að málið byggðist á rangfærslum. Óskammfeilnin er yfirgengileg. Að sjálfsögðu ættu arðgreiðslurnar að standa óbreyttar ef um rangfærslur væri að ræða og hægt væri að sýna fram á slíkt. Allur annar málflutningur er orðagjálfur og tilraun til að senda Svarta Pétur til skilningslauss almennings þar sem hann á hreint ekki heima. Ef Sjóvá ætti góðan málstað að verja þá skipti ekki miklu máli hvort um 3,1 milljarð eða 10 milljarða væri að ræða.

Fyrstu viðbrögð stjórnar Sjóvár voru þau samkvæmt fréttum að arðgreiðslurnar skyldu standa óbreyttar, en þegar menn skynja mjög eðlilegan mótbyrinn í samfélaginu þá lúffa þeir skyndilega enda málstaðurinn hræðilegur svo vægt sé til orða tekið. Hvers vegna er hann hræðilegur spyrja kannski sumir. Fyrst og fremst vegna þess að hin einkareknu tryggingafélög eru í raun tryggð hjá ríkisvaldinu án þess að þurfa að borga iðgjöld af tryggingunni. Kerfislegt mikilvægi þeirra veldur því að sögn að þeim verður bjargað ef á reynir. Um leið og þau geta stundað sinn einkarekstur í skjóli hins breiða faðms ríkisvaldsins og skammtað sér arðgreiðslur án afskipta, þá þarf almenningur að blæða í formi hækkaðra iðgjalda og líka ef illa fer hjá tryggingafélögunum vegna óhóflegra arðgreiðslna til dæmis.

Að tryggingafélög sem haga sér á svona glórulausan hátt skuli vera með ókeypis tryggingu hjá ríkisvaldinu og geti þannig leikið heilagar kýr, því lög og reglur veita bersýnilega ríkisvaldinu engan mátt til að bregðast við háttsemi þeirra, nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Þrælslund okkar Íslendinga er og hefur lengi verið rík, en hér er þörf fyrir bein inngrip bæði í formi breyttrar löggjafar og eins heilbrigðara samkeppnisumhverfis og þar með fleiri valkosta.

Upplagt gæti verið að stofna nýtt tryggingafélag að danskri fyrirmynd, til dæmis í stíl við GF Forsikring sem ég fjallaði um í síðustu tveimur bloggfærslum mínum. Eins og lögum og reglum er háttað í dag er nánast sjálfgefið og áhættulítið að stofna slíkt tryggingafélag því væntanlega væri það jafn kerfislega mikilvægt og hin tryggingafélögin sem sinna lögboðnum húsa- og bifreiðatryggingum.

Hvers vegna er ég að skipta mér af þessum málum þegar ég er búsettur í Danmörku? Svarið er einfalt. Ég er skattskyldur í bæði Danmörku og á Íslandi núna og greiði því skatt á báðum stöðum. Mér er meinilla við að skattfé mitt renni í sameiginlega sjóði sem að hluta til eru ókeypis baktrygging fyrir einkarekin tryggingafélög sem svo sannarlega sýna ekki ábyrga viðskiptahætti í því umhverfi sem þau starfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Guðnason

Höfundur

Magnús Guðnason
Magnús Guðnason
Ráðstefnutúlkur, þýðandi og áhugamaður um garðrækt. Er búsettur á Jótlandi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband