3.2.2023 | 10:49
Lágkúra í fréttaflutningi
Lágkúra í fréttaflutningi á Íslandi nær nýjum hæðum í þessari frétt. Fram kemur að fréttin er unnin í samtali blaðamanns við Halldór Benjamín Þorbergsson. Í Danmörku, þar sem ég bý, hefði þetta ekki verið talið birtingarhæft í stærstu dönsku dagblöðunum.
Framkvæmdastjórinn segir meðalheildarlaun bílstjóra í olíudreifingu hafa verið 893.000 krónur árið 2022 (hér er væntanlega átt við á mánuði þó þess sé ekki getið í fréttinni). Þar hefði hann að ósekju getað nefnt þátt grunnlauna annars vegar og svo yfirvinnu hins vegar. Svo kemur hinn furðulegi samanburður við svokallaðan fullvinnandi á almennum vinnumarkaði árið 2021 með lægri mánaðarlaun en 858.000 krónur. Í fyrsta lagi er út úr öllu korti að taka annars vegar árið 2022 og svo hins vegar árið 2021. Ef framkvæmdastjórinn hefur ekki enn tölurnar fyrir almenna vinnumarkaðinn árið 2022, þá á hann að birta tölurnar fyrir meðalheildarlaun bílstjóra í olíudreifingu árið 2021 til samanburðar við almenna vinnumarkaðinn sama ár. Hitt er verulega villandi og óheiðarlegur málflutningur og framkvæmdastjóranum til lítils sóma.
Hvers vegna notar framkvæmdastjórinn ekki orðið meðalheildarlaun í samanburðarupphæðinni heldur orðið mánaðarlaun? Er hann þar kannski að vísa til föstu launanna að undanskilinni yfirvinnu? Honum væri trúandi til þess með tilliti til frjálslega samanburðarins milli ára.
Það er hreint með ólíkindum líka að bera saman skýrt afmarkað starf bílstjóra í olíudreifingu við einhvern gráan, loðinn og óljósan massa 70% fullvinnandi á almennum vinnumarkaði árið 2021. Sá massi er væntanlega handvalinn af framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Nær hefði verið að tilgreina sambærileg störf eða starf á almenna vinnumarkaðnum þar sem unnið er við heilsuspillandi aðstæður líkt og í tilviki bílstjórans. Grái og loðni massinn, sem getið var hér á undan, vinnur jafnvel upp til hópa í þægilegri innivinnu. Ég sem lesandi hef að minnsta kosti enga möguleika á að geta mér til um við hverja samanburðurinn er í raun!
Danskir blaðamenn Jyllands-Posten og Politiken, svo dæmi séu tekin, láta viðmælendur sína ekki komast upp með annan eins moðreyk og boðið er upp á í málflutningi framkvæmdastjórans. Þeir biðja um samanburðarhæfar tölur, ekki stökk á milli ára og annars vegar skýrt tilgreindan hóp og hins vegar gráan og loðinn massa.
Meðallaun í olíuakstri um 900 þúsund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Magnús Guðnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.