Holskefla holdsveikra Dana á leiðinni!

Við Danir erum 5.822.763 talsins samkvæmt síðustu útgefnum tölum frá dönsku hagstofunni. Af öllum þessum fjölda er einn á gjörgæslu vegna kórónuveiru, já hvorki meira né minna en einn einstaklingur af tæplega sex milljónum íbúa. Þar að auki eru 13 einstaklingar innlagðir á sjúkrahús vegna veirunnar. Alls hafa greinst 15.855 einstaklingar með smit samkvæmt nýjustu tölum á ssi.dk og þar af eru 115 skráð smit síðastliðinn sólarhring og 112 teljast hafa náð sér á sama sólarhring. Búið er að skima 1.434.458 einstaklinga. Fjölgun smita upp á síðkastið er einkum meðal ungs fólks og yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem smitast nær sér að fullu. Alls hefur 621 Dani látið lífið vegna kórónuveirunnar og þar af enginn undir 30 ára aldri.

 

Eitt og annað hefur vakið athygli mína meðan á veirufaraldrinum hefur staðið hér í Danmörku og þá meðal annars það að toga þurfti upplýsingar um meðalaldur látinna með töngum út úr dönskum stjórnvöldum og var þetta lengi vel eitt best varðveitta ríkisleyndarmál Danmerkur. Mig minnir að talan hafi verið 230 látnir þegar þessar tölur voru loks birtar í fyrsta sinn. Þá kom í ljós að meðalaldur látinna karlmanna var nánast sá sami og meðallífaldur danskra karlmanna. Ég er sjálfur 65 ára gamall karlangi svo tölur um karlmenn standa mér nær en tölur um kvenmenn. Ef tölurnar fyrir látna karlkyns einstaklinga eru skoðaðar nánar, þá kemur í ljós að enginn hefur látist í Danmörku í aldurshópnum 0-29 ára, einn hefur látist í aldurshópnum 30-39 ára og enginn í aldurshópnum 40-49 ára. Fyrir forvitnar íslenskar konur er rétt að geta þess að engin dönsk kona í aldurshópnum 0-49 ára hefur látist af kórónuveiru enn sem komið er. 11 karlar hafa látist í aldurshópnum 50-59 ára, 37 í aldurshópnum 60-69 ára, 127 í aldurshópnum 70-79 ára, 133 í aldurshópnum 80-89 ára og 41 í aldurshópnum 90+. Alls hafa 350 karlmenn látist af völdum kórónuveiru í Danmörku og 271 kona.

 

Ofangreindar tölur segja auðvitað ekki alla söguna því sumir þeirra sem ná sér af veirunni glíma við alvarleg eftirköst og enn er of snemmt að segja til um hvenær og hvort þau eftirköst hverfa að fullu. Langflestir virðast þó ná sér að fullu og sumir sleppa með nánast engin einkenni á meðan þeir eru veikir. Hér er ég að vísa til reynslunnar í Danmörku og þori ekkert að fullyrða um Ísland.

 

Danska heilbrigðiskerfið ræður mjög auðveldlega við álagið af þessum eina einstaklingi á gjörgæslu vegna kórónuveiru og hinum 13 sem eru innlagðir auk allra hinna sjúklinganna sem þjást af öðrum kvillum. Auðvitað veit ég ekki nákvæmlega hvernig ástandið er á íslenskum heilbrigðisstofnunum en það hlýtur að vera afar bágborið ef það ræður ekki við neina aukningu frá því sem nú er. Hvað nákvæmlega gefur til kynna að sprenging verði í smitum við að leyfa Dönum að koma til Íslands án undangenginnar fimm daga sóttkvíar? Auðvitað ber að loka á lönd þar sem aukning smita er stjórnlaus. Hér í landi er aukningin mjög vel viðráðanleg enn sem komið er og 115 ný smit á sólarhring í landi með tæpar sex milljónir íbúa telst ekki vera heimsendir.

 

Það gleður mig að heyra raddir á Íslandi sem láta gaspur heimsendaspámanna og annarra bölsýnispostula sem vind um eyru þjóta og vísa þess í stað til staðreynda og hvetja til hófsemi auk þess að anda með nefinu og sýna stillingu á þessum viðsjárverðu tímum.

 

Halda mætti að von væri á holskeflu holdsveikra Dana til Íslands eftir miðnætti í kvöld ef marka má kvaðir íslenskra stjórnvalda um þvingaða fimm daga sóttkví. Svona vinnubrögð jaðra við byggingu nýs Berlínarmúrs á Íslandi og eru í engu samræmi við þá hættu sem í raun stafar af dönskum ferðalöngum í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Frábær samantekning. Fæ að deila.

Guðjón E. Hreinberg, 18.8.2020 kl. 15:17

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ákaflega góð umfjöllun. En vandinn er að ákvarðanatökunni ræður lægsti samnefnarinn; fáráðnlingar í panikkasti.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.8.2020 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Guðnason

Höfundur

Magnús Guðnason
Magnús Guðnason
Ráðstefnutúlkur, þýðandi og áhugamaður um garðrækt. Er búsettur á Jótlandi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband